Um Snjallnám.is

Snjallnám.is

Sem fjögurra barna móðir hef ég sjálf upplifað hversu mikið skólakerfið hefur breyst á síðustu 15 árum – einkunnagjöf getur verið óskýr, heimanámið er gjarnan bara lestur og það hefur stundum reynst mér erfitt að fá að sjá próf eða verkefni sem börnin gera í skólanum. Þetta hefur valdið því að mér finnst ég hafa misst yfirsýn á námsárangur yngri barnanna minna sem er óþægileg tilfinning. Ég vil geta gripið inn í ef barnið mitt er að dragast aftur úr, áður en það verður óviðráðanlegt. 

Þess vegna stofnaði ég Snjallnam.is – vikulegt námsefni, byggt á hæfniviðmiðum aðalnámskrár Mennta- og barnamálaráðuneytisins. 

Varan

Hægt er að kaupa stakan mánuð eða koma í áskrift. Með því að skrá barnið þitt í áskrift færð þú sent verkefnahefti 1x í mánuði. Verkefnaheftin skiptast niður í 4-5 vikur (fer eftir fjölda vikna í mánuði) og hvert hefti er um 5-8 blaðsíður. Í hverju hefti sérstakur fókus á íslensku og stærðfræði en svo er mismunandi eftir bekkjum og vikum hvert þriðja fagið er (t.d. lífsleikni, náttúrufræði, samfélagsfræði, landafræði...).

Verkefnaheftin eru uppsett eftir bekkjum og eru alls 52 (eitt á viku). Þau taka á öllum hæfniviðmiðum í íslensku og stærðfræði auk þess að farið er yfir það helsta (að mínu mati) tengt öðrum fögum. Námsefnið er sett fram á einfaldan og aðgengilegan hátt þannig að það ætti ekki að taka meira en 30-60 mínútur að klára það. 

Um mig

Ég heiti Hildur Hjartardóttir og er 4 barna móðir og stuðningsforeldri - þaðan kemur reynslan. :)  

Ég er líka með B.sc gráðu frá Háskólanum í Reykjavík í viðskiptafræði (áhersla á fjármál og hagfræði) og M.Sc gráðu frá Háskóla Íslands í Markaðsfræðum- og alþjóðaviðskiptum (áhersla á nýsköpun). Þar að auki er ég með diplóma í straumlínustjórnun (e. Lean) og hef lokið námi í markþjálfun.

Ég er s.s. ekki kennari en hef alltaf verið góður námsmaður og með metnað til að gera betur og aðstoða þar sem ég get. Því vona ég að snjallnám.is nýtist fleirum en mér.  

Samvera sem skilar árangri

Þó svo að verkefnaheftin séu ætluð börnum í 1.-10.bekk þá eru þau líka ætluð foreldrum sem vilja fá betri yfirsýn á stöðu barnanna sinna þegar kemur að námi og hæfniviðmiðum. Við gerð námsefnisins var því gert ráð fyrir að foreldri eða forráðamaður væri til taks í þessar 30-60 mínútur sem það tekur barnið að leysa hvert hefti. Með tíð og tíma mun ég svo bæta við allskonar stuðningsefni og myndböndum til að auka stuðning, bæði við foreldra og börn. 

Ábendingar

Ég tók eftir því í fyrra að dóttir mín sem er 8 ára er að nota, að hluta til, sömu námsbækur og ég var með þegar ég var lítil - ég er því að gera ráð fyrir að vera komin með góðan grunn að námsefni fyrir alla árganga haustið 2026, en ég sé líka fyrir mér að byggja ofan á þann grunn með tíð og tíma. 

Ég er því mjög opin fyrir ábendingum um nýtt efni og/eða það sem betur má fara.

Ég er mannleg og því er mjög líklegt að það séu einhverjar villur í námsefninu. Mér þætti vænt um ef þið mynduð senda mér skilaboð ef þið rekist á villur eða eitthvað sem betur má fara -> snjallnam@gmail.com